21.5 Sólarsellur á Íslandi.

 

Mikil framþróun hefur verið í beislun sólarorku s.l. 40 ár

og hafa afköst sólarsella aukist og verð lækkað.

Eitt hefur þó ekki breyst; Þær þurfa birtu og framleiða orku í jöfnu hlutfalli við þá birtu sem á þær fellur.

Það þýðir að þær framleiða lítið sem ekkert að nóttu til eða þegar snjór þekur þær, sem dæmi.

Eins dregur verulega úr framleiðslugetu í skýjuðu veðri og ef sól fellur ekki beint í selluna.

Vissulega mælist einhver framleiðsla þó svo birta sé lítil en oft ekki nægileg til þess að nýta hana.

 

Það hafa verið nokkrar umræður undanfarið varðandi virkjun húsþaka borgarinnar, m.a.  í fjölmiðlum.

Það er jú allt gott og blessað en fólk þarf að átta sig á því að við nýtum lítið sólarorku að vetri.

Það eru jú jafnframt sá tími árs sem við helst þurfum orku, í skammdeginu og kuldanum.

Markaður fyrir orku sem ekki er stöðug og áreyðanleg, sérstaklega að vetri, er því ekki stór.

 

Hægt er að geyma og miðla orku s.s. frá rafgeymum eða með vetnisframleiðslu.

Slík orkugeymsla er hins vegar afar takmörkuð og dýr og því ekki valin nema ekki sé um aðra kosti að ræða.

 

Framþróun sólarsella gefur aukin afköst við góð birtuskilyrði og lægri verð pr watt.

Framþróun stýringa kemur helst fram í betri nýtingu orku frá sólarsellum og upplýsingagjöf.

Framþróun rafgeyma gefur okkur meira geymslurými til lengri tíma.

 

Vindorka er vissulega annar grænn kostur sem gæti unnið samhliða sólarsellum en trúlega gengi það ekki í borginni.

Sólarsellur hafa reynst íslendingum einstaklega vel að sumri s.s. á sumarhús og ferðavagna en að vetri alls ekki.

 

Ekki vil ég letja fólk til þess að leyta nýrra leiða til orkuöflunar en hlýt að benda á augljósan misskilning ef ég verð hans áskynja.

Annars kæmi þessi  reynsla mín að takmörkuðu gagni.

 

Ef við erum uppiskroppa með fallvatnsvirkjanir eigum þó enn kosti í gufuafli á háhitasvæðum eða með djúpborunum.

Þar býr endalauas orka frá kjarna jarðar, sem við erum að ná ágætis tökum á sbr. Heillisheiðarvirkjun, Nesjavellir og Svartsengi.

En það er allt annar kapítuli sem ég eftirlæt öðrum að fjalla um.

 

Þetta geta virst einkennileg skrif frá aðila sem hefur atvinnu (í 35 ár) af innflutningi, sölu og uppsetningu sólarsella ..

og jafnvel ráðlagt varðandi uppsetningar á Spáni, Grænlandi og í Afríku ....

 

Sólarsellur eru frábær kostur, sá besti raunar, þar sem þær eiga við, en við þurfum að átta okkur á mörkunum.

Við búum við þær aðstæður að þurfa áreyðanlega og stöðuga orku - og mikið af henni - sérstaklega á veturna.

Tökum því alvöru ákvarðanir í orkumálum;  Upp með borvélina.

 

Rótor ehf / Lárus G. Brandsson